domingo, 1 de abril de 2007

Días españoles

Matargerð: matartilbúningur heimilisins er ekki á minni könnu. Það eru hins vegar eftirstöðvarnar – pottar, pönnur, skálir o.s.frv. Hér á Spáni er ekki notast við þvottabursta, heldur svampa sem gleypa í sig sápuvatnið og æla því út úr sér ef kreistir. Eftir sitja þó óhreinindin sem leirtauið er baðað upp úr við næsta uppvask. Þessi venja, auk vatnsins úr krönunum hérna suðurfrá, skilaði sér í svipuspaðaspýtingi fyrstu dagana. Klósettið hérna á heimilinu er þó varla brúkhæft. Svo nærri er það baðinu að jafnvel Laía (sem er 1:58 cm á hæð) þarf að sitja það skakkt ef fæturnir eiga að komast fyrir, þ.e.a.s. þvert. Ég reyni á hinn bóginn að sitja það ekki yfir höfuð og held í mér þangað til við flytjum, en þar er þrengslunum ekki fyrir að fara inn á baði þótt lofthæðin sé ekki nema 160 cm á stöku stað. Laía rétt sleppur undir en ég kjaga á eftir henni eins og hringjarinn í Notre Dame. En þetta átti að vera um matargerð. Hún samanstendur annars vegar af brauði [Magnús, handa sér og Laíu]; hins vegar af tortillas, steiktum kjúklingi, omelettum, steiktum pylsum, quiche (nokkurs konar baka), empanadillas (nokkurs konar hálfmánar, fylltir tómötum, túnfiski, lauk og eggjum), samlokum, fondue con fresas, chocolate con churros, crema de calabacín (mauksoðið grænmeti) og fleiru smálegu [Laía, handa sér og Magnúsi]. Er skemmst frá því að segja að ég hef ekki misst gramm frá því ég kom, og það þrátt fyrir að við hlaupum lafmóð umhverfis hafnarsvæðið hérna niðurfrá svo að segja hvern dag. Í gær gerðum við okkur svo glaðan dag og keyptum flösku af rauðvíni með kvöldmatnum (samloka með steiktum lauk og pylsum) á tvær (2) evrur.

Spænskir viðskiptahættir: til að leigja íbúð hér þarf að leggja 2700 evrur inn á óhreyfanlegan bankareikning á svo til engum vöxtum. Svo þarf að borga 900 evrur inn á annan reikning, en í hvorutveggja tilfelli er um einhvers konar tryggingu að ræða þar sem undirrituð eru svoddan slæpingjar að stunda enga vinnu að kalla. Fyrir þetta sér bankinn ástæðu til að rukka rúmlega 100 evrur. Látum það liggja á milli hluta. Til að komast úr vítishringjum barselónskrar leiguskrifstofu þarf hins vegar meira til. Þar heimtar það fyrirgreiðslur, tryggingar, vottorð, eignayfirlit ... – og pening. Heila glás af peningum, svo tvær armar manneskjur megi hírast undir 160 cm lofthæð upp á hanabjálka. Sú sem leigði penthouse-íbúðina á Carrer del Ample nr. 23 næst á undan okkur var sudamericana sem fékk að sögn “heimsóknir”, og þótti ekki fyrirmyndarleigjandi. Hefur okkur verið ráðlagt að skipta um lás þar sem sú suður-ameríska kann enn að hafa lykil undir höndum.

Spænsk tunga: Estoy aprendiendo castellano poco a poco con la ayuda de Laía. Pero aún no puedo hablar con los dependientes en las tiendas. Sin embargo, tampoco podría hacerlo en Islandia. Cada noche, traducimos algunos poemas de Federico García Lorca, y me he comprado una gramática castellana. Escuchando a la gente, no comprendo nada por el momento. Pero las cosas buenas llevan su tiempo.

1 comentario:

Grimanna í Ameríku dijo...

Hafðu þakkir fyrir ljómandi fræðandi blogg. Og trúðu mér, þetta er díll sem þú vilt ekki verða af.
Svo þarftu að breyta kommentakerfinu, svo allir geti skrifað þarfir sínar, t.d. foreldrar vorir.
Kv. G.